150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar þar sem fram kemur að hann ráðfæri sig við framkvæmdanefnd búvörusamninga um þá stöðu sem gæti komið upp. Það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að ef þetta frumvarp nær fram að ganga sé sæmileg sátt í greininni og að bú af hinum ýmsu stærðum geti unað við sitt því að maður þekkir það úr öðrum heimi, heimi kvótamála í sjávarútveginum, að þar hefur þróunin orðið á þann veg að þetta hefur þjappast á færri hendur. Er það nú að mínu áliti meira og minna okkur stjórnmálamönnunum að kenna, en það er önnur saga. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar og hef að svo komnu máli ekki neinar frekari spurningar fram að færa en mun að sjálfsögðu, þar sem ég sit í atvinnuveganefnd, fylgjast vel með þessu máli.