150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dálítið langt í þrettándann og ég veit ekki hvort hann verður mjög þunnur að þessu sinni. Ég fullyrði hins vegar að það samkomulag sem náðist milli bænda og ríkisins varðandi loftslagsmálin er tímamótamál. Það er engin þynnka í því, langur vegur frá. Það er full samstaða meðal bænda og á milli bænda og stjórnvalda varðandi þessi efni og umhverfisráðuneytið mun eiga sinn fulltrúa í þeirri vinnu ásamt ráðuneyti landbúnaðar og bændum að útfæra þær áherslur sem við erum að stefna að. Þær eru í fullu samræmi við þau metnaðarfullu markmið sem ríkisstjórnin hefur sett fyrir landið í loftslagsmálum. Og þegar rætt er um verðlagsmálin þá ítreka ég það hér að bændur hafa ekkert umboð til að semja um breytingar á lögum varðandi þriðja aðila úti í bæ. Þetta snýr fyrst og fremst að endurskoðun samnings sem er í gildi milli bænda og stjórnvalda. Ég ætla að lesa örstutta klásúlu um samninginn fyrir hv. þingmann svo að það fari ekkert á milli mála að það er rætt með hvaða hætti við ætlum að nálgast þessi mál.

„Í samkomulaginu sameinast stjórnvöld og bændur um að skoða breytingar á verðlagsmálum mjólkurafurða. Gerð verður greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Þá verður fyrirkomulag verðlagningar mjólkurvara á heildsölustigi tekið til endurskoðunar og skoðaður sá möguleiki að hætta opinberri verðlagningu mjólkurafurða.“

Þetta kemur með einhverjum hætti inn á þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram. En ég frábið mér það sem hv. þingmaður fullyrðir um afstöðu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessu stigi varðandi það áhugaefni sem hún hefur vissulega barist fyrir á undanförnum árum, þ.e. að gera breytingar á þessu ákvæði samkeppnislaga. En það er ekki efni þessa máls sem ég er að leggja hér fram.