150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir framsöguræðuna þegar hann flutti þetta mál fyrir þinginu og byrja á því að fagna því að þetta samkomulag liggi fyrir. Ég get lýst því yfir strax í upphafi ræðunnar að ég styð það heils hugar og mun vinna að samþykkt þess. Búvörusamningar og búvörumál eru oft mikið hitamál og kveikja tilfinningar hjá mörgum. Núna erum við að endurskoða gildandi búvörusamning til lengri tíma sem samþykktur var 2016 þannig að við erum í svolítið öðruvísi umhverfi en við höfum oft áður verið í með þessa samninga. Yfirleitt hafa þeir verið með þeim hætti að þeir hafa verið gerðir til sjö ára og síðan í einhverjum tilfellum hefur verið samið um tímabundnar framlengingar á þeim samningum, eins og gert var í hruninu, en svo hafa þeir samningar haft endadagsetningu og óvissa ríkt um framtíðina og um starfsskilyrði þessarar atvinnugreinar. Ég held að þetta fyrirkomulag, að hafa opnað fyrir það að gera lengri samning með opnunum, hafi fullkomlega sannað gildi sitt. Þá finnst mér líka kannski eilítið vanta upp á það í umræðu um þennan samning, ekki síst meðal bænda, svo ég bara segi það sem mér býr í brjósti, að menn hafi skilning á þeirri breytingu sem er á framkvæmd búvörusamninga og gerð samninga um starfsskilyrði mjólkur- eða nautgriparæktar og sauðfjárræktar og fleiri samninga sem gerðir eru.

Mér finnst ástæða, virðulegur forseti, til að draga fram við 1. umr. þessa máls í hvaða ljósi þessi samningur var gerður sem nú er verið að endurskoða árið 2016, t.d. það meginefni þessa frumvarps sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér um framtíð greiðslumarks, greiðslumarkskerfis eða framleiðslustýringar. Það lágu tvær meginástæður fyrir því að á þeim tíma í samningagerðinni sem hófst 2005, að því er ég best veit, voru uppi þær aðstæður hér á mjólkurmarkaði og mjólkurmörkuðum í kringum okkur að menn horfðu til þess að það væri gríðarleg eftirspurn eftir mjólkurvörum. Hin meginástæðan var sá kostnaður sem greinin hafði af því að versla með framleiðsluheimildir sín á milli sem menn voru að reyna að ná utan um í þeirri samningagerð. Rétt eftir samningagerðina, eða raunverulega í henni miðri, breyttust sumar aðstæður og forsendur aðrar en þær sem snúa að framleiðslu eða kostnaði við framleiðslustýringarkerfið. Þess vegna var mikilvægt að við frágang málsins í þinginu á sumardögum 2016 var sett inn ákvæði um að greiðslumatshafar myndu kjósa um framtíð framleiðslustýringarkerfis og sú afstaða liggur fyrir núna með mjög afgerandi hætti. Það er raunverulega megintakmark þessa frumvarps og þeirra breytinga sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur nú gengið frá við Bændasamtök Íslands að fylgja eftir og viðhalda þeirri framleiðslustýringu sem ég held og veit að er mjög mikilvæg. Þó svo að hún hafi náttúrlega og eðlilega, eins og öll mannanna verk, sína annmarka er hún samt það grundvallartæki sem hefur breytt þessari búgrein hvað mest og unnið með henni að þeim breytingum en ekki á móti henni eins og dæmin sanna.

Rétt aðeins í tilefni af því að umræða spratt upp í andsvörum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um hið fræga undanþáguákvæði frá samkeppnislögum sem að mjólkuriðnaði lýtur er eðlilegt að ég árétti að mjólkuriðnaður eða fyrirtæki er vinna úr mjólk á Íslandi lúta samkeppnislögum. Þau hafa aðeins mjög þrönga heimild til samstarfs um ákveðna verkaskiptingu. Það var lykillinn að þeirri gríðarlegu hagræðingu sem varð í þessari grein á árunum upp úr 1990. Og forsenda þess að við stöndum með þó þetta sterka búgrein í dag, mjólkurframleiðsluna, var að sú samstarfsheimild eða verkaskiptaheimild fékkst. Þannig að menn hafa á undanförnum árum fyrst og fremst borið uppi hagræðingu í þessari framleiðslugrein með því að taka til í framleiðslu og úrvinnsluiðnaði. Ég held að það megi aldrei slíta þá umræðu úr samhengi við hina raunverulega torveldu umræðu um þetta fræga undanþáguákvæði. Það geta hins vegar alveg komið þeir tímar að það verði eðlilegt að menn endurskoði það hver framtíð þessa undanþáguákvæðis sé. Ég bind vonir við það að við endurskoðun Alþingis á samkeppnislöggjöfinni í heild sinni megi útfæra sterkari tæki til að heimila ákveðna verkaskiptingu á almennum samkeppnismarkaði sem myndi þá m.a. grípa hina frægu undanþágu sem svo oft er gerð að pólitísku bitbeini.

Ég held að það sé ástæða til þess líka að nefna ákveðna þætti sem leiða til þeirrar niðurstöðu sem hæstv. landbúnaðarráðherra kynnir í framsögu og framlagningu á þessu frumvarpi. Flestar búgreinar á Íslandi hafa gengið í gegnum mjög miklar umbreytingar á undanförnum árum. Ég ætla að rifja upp nokkrar tölur og nefna að í ríkisreikningi fyrir árið 1986 lætur nærri að 10% af útgjöldum ríkissjóðs séu vegna landbúnaðarmála. Þegar ég fletti upp ríkisreikningi 2018 og ber hann saman við þann samning um starfsskilyrði nautgriparæktar sem er til umræðu er talan komin niður í 0,7%. Auðvitað var ég í fyrri tölunni með heildarlandbúnaðarkerfið svokallaða undir með útflutningsbótum sem þá voru og fleiri greiðslum. En þetta er stóra breytingin. Þetta er stóra breytingin fyrir hinn sameiginlega ríkissjóð. Hér er verið að fjalla um útgjöld ríkissjóðs sem nema 0,7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þetta, ásamt því að horfa til stórfækkunar á framleiðendum, stærri fjósa, stærri og öflugri rekstrareininga, hefur náttúrlega leitt fram alveg ótrúlega hagræðingu í þessari búgrein á Íslandi á undanförnum árum.

Sú meginbreyting var gerð við gerð samkomulags um starfsskilyrði nautgriparæktar 2004 að fram að þeim tíma höfðu greiðslur úr ríkissjóði verið bundnar við framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Því fagna ég sérstaklega að í þessu samkomulagi núna er enn og aftur hnykkt á því að við séum fyrst og fremst að styðja framleiðslu mjólkurvara fyrir innlendan markað. Breytingin fólst í því að heildargreiðslumark er ákveðið var hvert ár hafði raunveruleg áhrif á fjármuni er runnu úr ríkissjóði. Ef heildargreiðslumark mjólkur hækkaði þá hækkuðu greiðslur úr ríkissjóði á móti. Kerfið var einfaldlega stillt þannig af og það var metið samkvæmt verðlagsgrundvelli að 49% af framleiðslukostnaði væru greidd með svokölluðum beingreiðslum. Þetta var aftengt 2004. Frá þeim tíma hafa orðið óskaplegar breytingar sem er líka rétt að draga fram þegar við ræðum um útgjöld hins opinbera til málaflokksins. Þá var greiðslumark mjólkur um 104–106 milljónir lítra. Árið 2018 eru það 145 milljónir lítra mjólkur en ekkert hærri greiðslur úr ríkissjóði til að styðja við þá framleiðslu. Mér finnst mikilvægt að við drögum þetta fram í þessari umræðu því að oftar en ekki er umræðan um landbúnaðarmál svolítið drifin áfram af því að stilla þessu upp í því ljósi.

Við áttum í umræðu fyrr í dag, virðulegur forseti, um þjóðhagslega hagkvæmni þess að skipta um orkugjafa. Ástæðan fyrir því að ég nefni það er að mér finnst einboðið að sá samningur sem Bændasamtökin og hæstv. landbúnaðarráðherra gerðu og ráðherra leggur nú fyrir Alþingi til samþykktar sé ekki síður þjóðhagslega mikilvægur fyrir þetta samfélag. Við ættum að hafa fleiri orð og lengri ræður um gildi landbúnaðar fyrir samfélagið, gildi landbúnaðarframleiðslunnar og starfs bænda í þeim efnum. Ég ætla svo sem ekki að fara dýpra í þá umræðu en ég vil bara rifja upp að það er orðið almennt viðurkennt og við höfum gengið fram í því á undanförnum árum, reyndar í ótrúlega mörgum málaflokkum, að búa til ýmiss konar kerfi til stuðnings tiltekinni atvinnustarfsemi sem við viljum vernda vegna þess að við teljum hag fyrir samfélagið vera að því. Ég get nefnt hluti eins og kvikmyndaframleiðslu, bókaútgáfu og núna er umræða um fjölmiðla. Í því ljósi vil ég líka beina athyglinni að umræðunni um orkuskipti sem við áttum í dag og því samkomulagi sem er í þeim samningi sem hæstv. landbúnaðarráðherra kynnti um loftslagsmál. Það er því miður ekki oft talað um að t.d. það framleiðslustýringarkerfi og sú hagræðing sem greinin hefur farið í gegnum á undanförnum árum hefur orðið til þess að það er um 40% samdráttur í notkun á jarðefnaeldsneyti á bak við hvern framleiddan lítra. Það hefur verið hreinn samdráttur á undanförnum 25 árum.

Og áfram skal haldið vegna þess að við ræðum hér um endurskoðun samnings frá 2016. Þar voru áherslurnar fyrst og fremst á aðbúnað búfjár. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við veitum því athygli hversu mikilvægt það getur verið að gera samninga til langs tíma með endurskoðunarákvæðum því að tíðarandinn breytist og verkefnin breytast. Það sem var efst á baugi árið 2016 var að ræða og bregðast við auknum kröfum um velferð búfjár. Allar búgreinar á Íslandi hafa tekið það mjög alvarlega og ekki síst nautgriparæktin. Það hefur orðið hrein bylting í aðbúnaði búfjár á Íslandi. Í dag setjum við á oddinn umhverfismálin og þessi atvinnugrein, landbúnaður og mjólkurframleiðsla og nautakjötsframleiðsla, á stóra möguleika á að taka þátt í því stóra verkefni okkar að ráðast í umhverfismálin. Það mætti í því sambandi svo sem tíunda fjölmörg verkefni í þeim efnum, t.d. nýtingu á mykju, dreifitíma búfjáráburðar, fóðrun búfjár og fleiri slíka þætti sem ég reikna með að verði frekar ræddir og útfærðir í öðru samkomulagi er Bændasamtökin gera við ríkisvaldið, hinum svokallaða rammasamningi landbúnaðarins yfir almenn starfsskilyrði og markmiðasetningu á þeim vettvangi.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt samkomulag. Það skiptir gífurlegu máli fyrir atvinnugreinar eins og landbúnað, fyrir nautgriparækt, sem hafa langa framleiðsluferla, að hafa fyrirsjáanleika. Ég myndi eindregið vilja að í þessari umræðu og umfjöllun hv. atvinnuveganefndar þegar hún tekur þetta mál til athugunar ræði menn líka þegar kemur að næstu endurskoðun samninga um starfsskilyrði landbúnaðarins, næsta endurskoðun samkvæmt gildandi samningum er um 2023, ef ég man rétt, um framhaldið eftir árið 2026. Ég held að tímabært sé að við förum að ræða það. Ekki það að ég leggi til að það verði gerðar breytingar á þessum samningi og hann lengdur í þá áttina heldur að rætt sé hvað tæki við eftir þann tíma, því að tíminn líður ótrúlega hratt. Ég nefndi áðan langa framleiðsluferla. Það sem bóndinn tekur ákvörðun um í dag er ekki orðið að framleiðsluverðmæti hans fyrr en eftir tvö, tvö og hálft ár þannig að tíminn skiptir óskaplega miklu máli og fyrirsjáanleikinn í þessari atvinnugrein.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg hægt að segja það kinnroðalaust að þetta samkomulag sem um ræðir tekur á þeim tveimur meginþáttum sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, greiðslumarki og framleiðslustýringu. Það hefur verið sett í farveg að ræða og endurskoða verðlagningu á mjólk og ég er ekki í nokkrum vafa um að þjóðhagslegur ábati samfélagsins af því að standa að verki með þeim hætti sem hér er gert er verulegur.