150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[19:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu og andsvar frá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni. Ég held að svarið sé augljóst. Þá hefði endurskoðun samkvæmt ákvæðum samningsins einfaldlega ekki farið fram og þar með gilti samningurinn eins og frá honum var gengið hér á Alþingi 2016 og greiðslumarkskerfið hefði verið lagt niður og framleiðslustýringarkerfið aflagt. Ég held að það hefði verið ákaflega döpur niðurstaða. Ég horfi á það að í kjölfarið á niðurlagningu framleiðslustýringar innan Evrópusambandsins, sem mjög var horft til hérna á árunum 2015 og 2016, hafa skapast veruleg vandræði þar fyrir framleiðendur. Ég var staddur úti í Skotlandi um daginn og hitti þar bændur þar sem þeir eru að takast á við það að draga mjólkurframleiðslu saman um 26%. Ef þessi endurskoðun hefði ekki gengið eftir er ég ekki í nokkrum vafa um það að á tiltölulega stuttum tíma hefði þurft að lækka skilaverð til bænda fyrir hvern innlagðan lítra mjólkur verulega. Það er miklu meiri kostnaður og miklu meiri ógn við þessa atvinnugrein en t.d. að takast á við það að viðhalda framleiðslustýringarkerfi og aðilaskiptum á því sem er hitt meginefni þessa máls. Þess vegna fagna ég því að þetta samkomulag geri einfaldlega ráð fyrir því að menn fari með varfærni þar um dyr.