150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[19:05]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur fyrir andsvör hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar. Ég vil bara draga fram eina staðreynd. Við höfum í samanburði á milli skilaverða á búfjárafurðum til bænda við önnur lönd sérstöðu þegar kemur að skilaverði, verði til bænda á mjólk. Þar hefur okkur hefur tekist, vegna þeirrar samþjöppunar og hagræðingar í rekstri mjólkurstöðvar sem ég fjallaði um í ræðunni, út af hinu fræga undanþáguákvæði sem oft er gert að bitbeini, að ná algerri sérstöðu. Við höfum fyrst og fremst tryggt lækkun á markaði til neytanda með hagræðingu í mjólkuriðnaði og ásættanlegu skilaverði til bænda. Það er það skilaverð sem ég hefði séð fyrir mér að hefði fallið mjög hratt ef við hefðum ekki stigið það skref að halda römmum utan um það. Auðvitað var í samkomulaginu frá 2016 gert ráð fyrir ákveðnum aðgerðum til þess að grípa inn í til að hefta óæskilega þróun í þeim efnum en í það minnsta höfðum við sem fjölluðum um það samkomulag árið 2016 ekki sannfæringu fyrir því að þær myndu virka.

Ég held að það sé verðmæti fyrir íslenskan landbúnað að viðhalda fjölbreytileika í stærð búa og samsetningu búa. Ég ætla ekkert að segja annað en það að búskapur er stoð við aðra búsetu í sveitum, hvort sem það er ferðaþjónusta eða aðrar búgreinar, og ég held að það sé mikilvægt. Það eru ákveðin skref stigin í þessu samkomulagi eins og t.d. um hámarkseign á greiðslumarki, um hámarkskaup á hverjum kvótamarkaði. Þá eru menn að stíga skref til að vernda þennan fjölbreytileika án þess að það komi niður á megindrifkraftinum sem er að sækja hagkvæmni og meira frelsi til að stunda þessa atvinnugrein sem er í raun og veru drifkraftur framfara að mínu viti.