150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Eftir þau álitamál sem voru reifuð í þessari umræðu fyrr í dag hefur allsherjar- og menntamálanefnd fundað og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson hjá forsætisráðuneytinu og Andra Árnason, settan ríkislögmann. Þá var skýrt af hálfu ráðuneytisins að vilji löggjafans hafi ekki staðið til annars en að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

Á fundi nefndarinnar kom skýrt fram í 1. gr. frumvarpsins, sem og greinargerð með frumvarpinu, hvaða aðilar ættu bótarétt nákvæmlega samkvæmt frumvarpinu. Í 1. gr. segir:

„Ráðherra er heimilt að greiða bætur í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 27. september 2018 í máli nr. 521/2017.

Bætur skulu greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru. Fjárhæð bóta skal meðal annars miðast við lengd frelsissviptingar.“

Hér er lykilatriði orðalagið „á sama grundvelli“. Því er ætlað að taka af allan vafa um að bætur sem greiðast til barna og maka eru þær bætur sem hinum látnu voru ætlaðar, engar aðrar bætur, ekki fyrir eigin miska eða neinar aðrar bætur, þær bætur sem hinum látnu voru ætlaðar.

Þá kemur skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu að átt sé við bætur til þeirra fimm sem sýknaðir voru með þessum dómi Hæstaréttar og aðeins kveðið á um að bætur til hinna látnu geti runnið til eftirlifandi barna og maka til að gæta jafnræðis á milli aðila.

Í greinargerð segir enn fremur að lagasetning um heimild ráðherra til að greiða hinum sýknuðu og eftirlifandi mökum, ef við á, og börnum þeirra sýknuðu, sem látnir eru, bætur þurfi að koma til vegna þeirrar einstöku réttarstöðu sem reis af sýknudómnum. Þá er skýrt að þeir sem telji sig eiga sjálfstæðan bótarétt vegna eigin miska geta leitað með þá kröfu sína til dómstóla og auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um útkomuna úr slíku máli.

Eftir þessa allítarlegu umfjöllun um þau álitaefni sem komu hér upp í dag hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að afgreiða skuli málið án viðbótarnefndarálits og án breytingartillögu.