150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

mannabreytingar í nefndum.

[15:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseta barst tilkynning þann 3. desember sl. frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um mannabreytingar í nefndum þingsins, á grundvelli 16. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Í allsherjar- og menntamálanefnd tekur Steinunn Þóra Árnadóttir sæti sem aðalmaður í stað Andrésar Inga Jónssonar, en Ari Trausti Guðmundsson verður varamaður. Í efnahags- og viðskiptanefnd verður Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varamaður í stað Steinunnar Þóru Árnadóttur. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verður Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varamaður í stað Andrésar Inga Jónssonar. Í utanríkismálanefnd verður Kolbeinn Óttarsson Proppé varamaður í stað Steinunnar Þóru Árnadóttur. Þá verður Rósa Björk Brynjólfsdóttir varamaður í velferðarnefnd í stað Andrésar Inga Jónssonar. Loks mun Ólafur Þór Gunnarsson taka sæti sem varamaður í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES í stað Andrésar Inga Jónssonar.

Þessar mannabreytingar skoðast samþykktar án atkvæðagreiðslu ef enginn hreyfir andmælum.

Forseta hefur einnig borist tilkynning frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni í þingflokki Viðreisnar, um að hann hafi sagt sæti sínu lausu sem aðalmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þingheimi öllum er væntanlega kunnugt tildrög þessarar mannabreytingar í nefndum, þ.e. úrsögn hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Í 5. málslið 1. mgr. 14. gr. þingskapa segir að hver alþingismaður eigi rétt á sæti í a.m.k. einni þingnefnd samkvæmt 13. gr. Nú er laust sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þökk sé þingflokki Viðreisnar sem brást vel við málaleitan um að gefa það sæti laust í þágu þess að hægt væri að leysa úr þeirri stöðu sem upp var komin innan ramma þess heildarsamkomulags sem þingflokkar gerðu með sér í upphafi kjörtímabils. Kann ég þingflokki Viðreisnar og sérstaklega þingflokksformanni Hönnu Katrínu Friðriksson þakkir fyrir.

Með vísan til samtala um þetta mál við þá forystumenn þingflokka sem stóðu að samkomulagi um nefndaskipunina á þingi eftir síðustu kosningar leggur forseti til að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson taki sæti aðalmanns í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Skoðast sú tillaga samþykkt ef ekki er hreyft andmælum.