150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

málefni BUGL.

[15:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku var grafalvarlegt mál í fréttum. Hvað er í gangi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans? Þarna eru 500 börn í þjónustu og 100 börn á biðlista eftir að komast í meðferð; börn sem þurfa að komast í meðferð vegna fjölbreytts vanda, t.d. alvarlegra geð- og þroskaraskana. Á BUGL er 45% starfsmannavelta á ári meðal fagfólks. Er það rétt, hæstv. heilbrigðisráðherra, og hvað er þá verið að gera í því grafalvarlega máli? Þarna eru undir fjölskyldur og börn sem þurfa stöðugleika og aðstoð strax og ekkert barn á að vera þarna á biðlista. Það álag sem fjölskyldur verða fyrir vegna þessara veikinda barna er svakalegt og það vita bara þeir sem reynt hafa. Álagið er svo mikið á starfsmenn á BUGL að þeir eru að sligast. Og hvað er hæstv. ráðherra að gera í því? Er það fleira en léleg starfskjör og álag sem um er að ræða og er það ekki grafalvarlegt mál að sérhæft starfsfólk með reynslu og langa þjálfun í starfi sé að fara annað? Verða þá ekki gæði þjónustunnar verri og biðlistarnir lengri vegna nýs starfsfólks sem verður að þjálfa?

Léleg kjör og álag á starfsfólk barna- og unglingageðdeildar Landspítalans bitnar bara á börnum og fjölskyldum þeirra, álag sem þau mega alls ekki við ofan á það álag sem fyrir er. Árið 2018 fjölgaði um 16% á göngudeild og svipuð fjölgun er í ár. Þetta er, eins og ég segi, mjög alvarlegt mál og þarna eru 100 börn, alvarlega veik börn, og svona hefur þetta verið ár eftir ár. Er ekki kominn tími til að við sjáum til þess hér í eitt skipti fyrir öll að börn sem eru með geðraskanir og alvarleg veikindi séu ekki á biðlista? Hvað segir það um okkur að við getum ekki einu sinni gengið þannig frá málum að börn þurfi ekki að vera á biðlista?