150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

framtíð innanlandsflugs.

[15:19]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. samgönguráðherra vegna samkomulags sem er nýundirritað frá 28. nóvember sl. Í því samkomulagi er ákveðið að fullkanna þann möguleika að reisa og reka varaflugvöll í Hvassahrauni sem myndi þjóna innanlandsflugi sem og einka-, æfinga- og kennsluflugi. Það er í takt við þær niðurstöður sem komu fram í skýrslu stýrihóps samgönguráðuneytisins um flugvallakosti á Suðvesturlandi. Það stingur í stúf þegar maður les þetta samkomulag annars vegar og hins vegar samkomulagið sem undirritað var 25. október 2013 af þáverandi innanríkisráðherra og þávverandi borgarstjóra að í þessu tiltekna samkomulagi frá 28. nóvember sl. segir að grundvöllur þessa samkomulags sé m.a. að áætlaður nýtingarstuðull flugvallar í Hvassahrauni verði greindur í samanburði við þá flugvelli sem fyrir eru á suðvesturhorninu. Við þennan lið, e-lið 2. gr., er neðanmálsskýring og í henni er talað um „hlutfall daga sem áætlað er að flugvöllurinn verði opinn á ársgrundvelli“. Hins vegar segir í reglugerð 464/2007 um flugvelli, sem byggð er á viðauka 14 frá Alþjóðaflugmálastofnuninni, að gæta skuli að 95% nýtingarstuðli miðað við fjölda og legu flugbrauta og vinda sem eru á þeim velli, ekki eitthvert óútskýrt eða óskilgreint hlutfall af nýtingu eða dögum sem aðrir flugvellir eru opnir. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti útskýrt fyrir mér hvaðan þessi nýtingarstuðull er kominn og hvernig á að túlka hann, þ.e. hvert hlutfallið skuli vera.