150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

framtíð innanlandsflugs.

[15:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir að taka upp umræðu um þetta samkomulag sem lýtur að því að reyna að eyða sem mestri óvissu sem hefur verið uppi, ekki síst eftir undirritun sem hv. þingmaður vísaði til frá 2013. Þá var ekki aðeins undirritað samkomulag um kennslu- og æfingaflug þar sem ríkið tók í raun á sig þá byrði að koma upp æfinga- og kennsluflugvelli annars staðar en á Reykjavíkurflugvelli eins fljótt og hægt yrði, heldur var við sama tilefni ritað undir annað samkomulag sem þrengdi enn frekar að Reykjavíkurflugvelli. Það samkomulag hefur m.a. orðið til þess, eins og við þekkjum öll, að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar skal loka þeim brautum sem eftir standa, en samkomulagið sem skrifað var undir á fyrrnefndum degi snerist um neyðarbrautina. Hún lokaði síðan eftir hæstaréttardóm. Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á að loka hinum brautunum 2022 og 2024.

Hér er akkúrat verið að gera samkomulag um að kanna til hlítar hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að fara í Hvassahraun. Þar á meðal er það nefnt sem hv. þingmaður nefndi um nýtingarstuðul og augljóslega, hv. þingmaður, í því skyni að það sé ekki lakara en á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Ef við erum að fara að bera saman epli og epli og taka ákvarðanir um gríðarlegar fjárfestingar í framtíðinni verðum við að hafa sömu forsendur í það minnsta, alveg eins og stendur í nokkrum af þeim skýrslum sem hafa verið gerðar, að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki fluttur fyrr en annar jafn góður eða betri flugvöllur sé í boði. Þetta ákvæði er m.a. um það. Þarna er líka fjallað um áætlunarflug innan lands, sjúkra- og björgunarflug, varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll, atvinnuflug tengt ferðamönnum og kennslu-, æfinga- og einkaflug sem er búið að skuldbinda ríkið, einmitt frá árinu 2013, til að finna annan völl fyrir.