150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

framtíð innanlandsflugs.

[15:25]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Nei, það er akkúrat það sem þetta samkomulag gengur út á, að eyða þeirri óvissu hvort samkomulagið sem var skrifað undir haustið 2013 kalli fram möguleika á að loka Reykjavíkurflugvelli. Það verður ekki. Þetta samkomulag og skýrslan sem var unnin segja að verði niðurstaðan jákvæð gagnvart Hvassahrauni er varðar veðurfar, flugprófanir og aðra umhverfisþætti, varðandi fjarlægðir og umferð frá Hvassahrauni inn í miðborg Reykjavíkur og til Keflavíkur og slíka þætti, verði hægt að hefja vinnu við að kanna frumdrög, frumhönnun og kostnaðaráætlanir og síðan taka ákvörðun um Hvassahraun. Það mun taka 15–17 ár. Með öðrum orðum verður Reykjavíkurflugvöllur í það minnsta á sínum stað næstu 15–20 árin. Þetta samkomulag segir það en um það var einmitt óvissa áður, hv. þingmaður, það samkomulag sem var skrifað undir haustið 2013 (Forseti hringir.) af ákveðnum aðilum sem hv. þingmaður þekkir ágætlega.