150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samkomulag við fráfarandi ríkislögreglustjóra.

[15:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í gær bárust okkur þær fregnir að loksins væri komin niðurstaða er varðar framtíð Haraldar Johannessen í embætti ríkislögreglustjóra, loksins leyfi ég mér að segja, því að mikill styr hefur staðið um hann og hans persónu í þessu mikilvæga embætti yfirmanns lögreglumála á Íslandi um nokkra hríð, jafnvel um nokkurra ára skeið. Ég tel rétt á þessum tímapunkti þegar hagsmunir almennings eru að leiðarljósi að hann víki úr embætti og því má segja að þetta sé gott, ekki síst vegna þess að fyrir nokkrum mánuðum lýstu allir lögreglustjóra landsins, utan eins, og Landssamband lögreglumanna yfir vantrausti á störf hans í embætti. Þá liggur það einnig fyrir að umboðsmaður Alþingis hafði áður sent fyrirspurn á dómsmálaráðuneytið um það hvers vegna Haraldur Johannessen hefði ekki verið áminntur í starfi þegar hann sendi bréf á blaðamann á bréfsefni embættisins þar sem hann kvartaði yfir umfjöllun í fjölmiðlum. Þessi veruleiki hefur blasað við lengi og í raun einungis tímaspursmál hvenær hann viki úr embætti en nú hefur hæstv. dómsmálaráðherra sem sagt gert fordæmalaust samkomulag við umræddan embættismann, samkomulag sem hefur vakið furðu og jafnvel reginhneykslan um samfélagið.

Samkomulagið hljóðar upp á að fráfarandi ríkislögreglustjóri sem lýst hefur verið yfir vantrausti á leiði stefnumótunarvinnu í ráðuneytinu um framtíðarskipulag lögreglumála næstu þrjá mánuði. Að því loknu haldi hann óskertum launum sínum án vinnuframlags í samtals 24 mánuði.

Fyrri fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra er tvíþætt: Telur hún heppilegt að einstaklingur sem hvorki nýtur trausts átta af níu lögreglustjórum á Íslandi né Landssambands lögreglumanna leiði stefnumótunarvinnu um framtíðarskipulag löggæslu á landinu? Seinni spurningin er hvort hún telji meðalhóf og jafnræði hafa ríkt við ákvarðanatöku sína er hún samþykkti nærri 40 millj. kr. útgjöld skattgreiðenda til handa þessum einstaka embættismanni.