150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef nefnt áður mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðsluna vegna persónulegra tengsla minna við aðila sem kemur málinu við. Þó hef ég verið í því hlutverki að mæla fyrir því að málið verði samþykkt. Ég verð að segja að umræðurnar upp á síðkastið hafa dregið mjög úr mikilli sannfæringu minni í málinu og ég hugsa að ég myndi sitja hjá jafnvel þótt ekki væri fyrir fyrrnefnd tengsl. Aftur á móti verður líka að segjast um þetta mál að það er þess eðlis að í raun og veru er engin rétt leið vegna þess að tilvist málsins og það að það sé lagt fram og eðli þess ber allt einkenni þess að málið er bara komið á mjög vondan stað. Það eru engar góðar lausnir í boði, bara misvondar. Ég hef mikinn skilning á því að fólk sé pínu ringlað í því hvernig það vilji greiða atkvæði í þessu. En mér fannst fyrst og fremst rétt að nefna fyrrnefnd tengsl og tek einnig fram að hið sama getur átt við um atkvæði annarra þingmanna Pírata.