150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði hér á undan. Það er afskaplega erfitt fyrir okkur að vera komin í þá stöðu að vera í raun að stíga inn í 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvalds þar sem við ætlum að taka í okkar hendur það sem er mín sannfæring að sé dómsvaldsins að skera úr um. Hins vegar er málið náttúrlega okkur öllum hugleikið, sorglegt, hryllilegt mál sem við munum aldrei geta bætt skaðann af. En í ljósi þess að hér erum við nú að vinna að því að fylgja stjórnarskránni okkar og viljum jafnvel fá alveg nýja, get ég því miður ekki gert betur en að sitja hjá. Ég get ekki greitt atkvæði með því að betur athuguðu máli að við skulum ætla að færa þetta hingað inn til löggjafans.