150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í þessu eru nokkur ágætisatriði. Ég lít ekki á þetta mál sem heimild ráðherra frá þinginu til að gera neitt sérstakt umfram það sem ráðherra hefur nú þegar heimild til að gera, nema kannski að einu leyti. Það er í 2. mgr. 2. gr. varðandi það að ef samkomulag er gert geti viðkomandi aðilar samt farið dómstólaleiðina í framhaldinu. Ef eitthvað er þá er það kannski það eina sem þarf í þessu máli. Það sem er í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. ætti í raun að vera almenn ákvæði laga. Að því leyti til styð ég þetta mál af því að mér finnst að þessi ákvæði ættu að vera almenn og þar af leiðandi sé ég ekkert að því að þau séu sértæk líka. Þetta hjálpar vonandi til við að þessi atriði verði að almennum lögum. 1. mgr. 2. gr. er t.d. þingmál sem Píratar eru með, keimlíkt þessu. (Forseti hringir.) Það mætti meira að segja útvíkka það í áttina að þessu.