150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[15:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er m.a. um þær tekjuskattsbreytingar sem fengust með kjarasamningunum í vor sem við í Samfylkingunni styðjum. Það er einnig um að þessar breytingar taki ekki að fullu gildi fyrr en á þarnæsta ári og við erum ekki ánægð með það og styðjum ekki þær dagsetningar. Við erum ekki heldur sammála stefnu ríkisstjórnarinnar um að beita barnabótakerfinu sem eins konar fátækrastyrk að fyrirmynd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við jafnaðarmenn viljum líta til hinna norrænu ríkjanna eftir fyrirmyndum að því kerfi og ég vil benda hv. þingmönnum, sem halda því ranglega fram að íslenska barnabótakerfið sé í takti við norræna módelið, á að lesa nýja skýrslu sem má finna á heimasíðu BSRB um þetta mál. Samfylkingin greiðir frumvarpinu í heild ekki atkvæði sitt.