150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[15:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er verulegt fagnaðarefni að við ljúkum nú meðferð þessa máls og lögfestum tekjuskattslækkunina. Hér er um að ræða stórkostlegt hagsmunamál fyrir launþega í landinu. Allur meginþorri launþega mun sjá lækkaða skattbyrði með samþykkt þessa frumvarps. Mest munu þeir lækka sem liggja á bilinu 300.000–400.000 kr. á mánuði. Menn ættu að vita að þetta mál er lykilmál í því að ljúka langtímakjarasamningum í landinu. Þetta er eitt af stóru málum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu og verulegt hagsmunamál fyrir heimilin.

Ótekjutengt barnabótakerfi hefði á árinu 2019 kostað 28 milljarða. Því hefur ekki verið haldið fram að við séum með eins barnabótakerfi og er á Norðurlöndunum. Í nýlegri skýrslu um endurskoðun á tekjuskatti og bótakerfum kemur þetta allt saman mjög skýrt fram en það sem við gerum á Íslandi er að við styðjum betur þá sem eru tekjulágir (Forseti hringir.) en gert er annars staðar.