150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[15:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að flækja skattkerfið enn frekar þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað reglulega um að einfalda skattkerfið. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna hvernig þessi breyting breytir sköttum milli tekjutíunda. Færa má sterk rök fyrir því að þessi breyting feli í sér skattahækkun fyrir ákveðinn hóp fólks. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að breytingin komi til með að hafa einhver áhrif hvað samsköttun varðar. Miðflokkurinn telur aðrar og betri leiðir færar til að lækka skatta án þess að flækja skattkerfið. Það er sannarlega þörf fyrir það að lækka skatta á lægstu tekjur en það á ekki að gera á kostnað millitekjufólks og það á heldur ekki að blekkja fólk. Það að lækka skatta en hækka öll gjöld á móti, eins og ríkisstjórnin er að gera, er sýndarmennska og kemur engum til góða.