150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hugmyndir eru í sjálfu sér ekkert merkilegar, það er útfærslan á þeim sem skiptir máli. Þriggja þrepa kerfi er gott ef það er vel útfært. Það hefði auðvitað átt að setja hátekjuþrep þannig að við sem erum aflögufær greiddum en þau sem eru með lægstu tekjurnar nytu skattalækkunar í meira mæli.

Hér var talað um barnabætur og hv. þingkona Oddný Harðardóttir nefndi nýjar tölur. Upphæðir barnabóta meðallaunafjölskyldu eftir fjölda barna 2018 í kaupmáttarleiðréttum krónum eru eftirfarandi: Í Danmörku eru þær 524.448, í Svíþjóð 443.605, í Finnlandi 390.675, í Noregi 327.802 og, haldið ykkur nú fast, á Íslandi 5.505 kr., takk fyrir.