tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.
Virðulegi forseti. Þessar breytingar koma vissulega þeim sem eru með lægstu launin best en ekki þeim sem eru með allra lægstu launin. Það er ákveðinn hvati fyrir fólk til að ná þeim árangri sem maður getur náð með því að komast upp í þetta bil sem fjármálaráðherra nefndi, 300.000–400.000 kr., eitthvað þar mitt á milli. Velflestir af þeim hópum sem eru á því tekjubili eru bundnir skerðingum og þurfa þar af leiðandi að vinna enn meira og leggja enn meira á sig til að ná þeim hvata sem er í því kerfi, að komast upp í þessar lægstu tekjur úr allra lægstu tekjunum.
Mér finnst vera krosstengsl þarna sem eru ekki alveg nógu góð hönnun. Að minnsta kosti hefði átt að jafna ávinninginn alla leið niður tekjustigann, ekki klippa hann á þessum lægstu tekjum heldur láta hann gilda líka fyrir þá sem eru með allra lægstu tekjurnar.