150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:05]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Skattalækkun er frábær, ég hef ekkert á móti skattalækkunum, a.m.k. ekki þessum skattalækkunum. Þetta eru bara hænuskref. Eins og á við um svo margt hjá þessari ríkisstjórn skortir þessar aðgerðir hugrekki, hugmyndaflug og framsýni. Það er vandamálið, það er kjarninn í þessu. Við þurfum nefnilega að endurhugsa skattkerfið heildrænt til að geta tekist á við yfirvofandi samfélagsbreytingar. Sú endurhugsun krefst þess að við horfumst í augu við úrelta hugmyndafræði sem mun ekki koma til með að þjóna okkur til framtíðar.

Þetta eru hænuskref, þetta er allt of lítið. Við erum ekkert að tala um stóru hlutina, t.d. hvernig við ætlum að útrýma fátækt. Við getum alveg gert það, en ég held að hugmyndafræði allt of margra hér inni snúist um að það sé ekki hægt. Ég held að það séu allt of margir þingmenn hér inni, fjármálaráðherra þar með talinn, sem trúa ekki að við getum nálgast samfélag þar sem engin fátækt er. Það er vandamálið. Við erum „basically“ að ausa vatni úr lekum bát og mér finnst það vera kostuleg umræða.

Við Píratar hefðum gert þetta allt öðruvísi. (Forseti hringir.) Þess vegna sit ég hjá.