tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.
Virðulegur forseti. Mér þótti kostulegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra skýla sér á bak við góða umgjörð sveitarfélaganna varðandi frístundastyrki (Gripið fram í.) og leikskólagjöld á sama tíma og þau sömu kvarta mjög undan því að ríkisvaldið sé ekki beinlínis gjöfult í tekjum til sveitarfélaganna. (Fjmrh.: Kvarta undan sköttum.) Þar standa sveitarfélögin sig svo sannarlega ágætlega en ríkisstjórnin stærir sig ekki af þeirri stefnu. Eftir stendur að auðvitað eru skattalækkanir alltaf af hinu góða. Þetta eru bara assgoti — afsakið orðbragðið, hæstv. forseti [Hlátur í þingsal.] — (Fjmrh.: Er þetta ekki skattahækkun?) lítilmótlegar (Forseti hringir.) skattalækkanir. Staðreyndin er sú að það væri óskandi að ríkisstjórnin hefði farið fram með skattalækkanir fyrir næsta ár af sömu áræðni og hún fór fram með útgjaldaaukninguna sem sannarlega hefur ekki skort á.