150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Skattalækkanir eru ekki alltaf góðar. Ég vildi bara að sú skoðun kæmi fram. [Hlátur í þingsal.] Hins vegar geta skattalækkanir á fólkið með lægstu tekjurnar verið mjög fínar. Hér erum við á þeirri góðu og merkilegu stundu að samþykkja þriggja þrepa skattkerfi sem tekur tillit til tekna fólks. Þetta er stór stund. Þess má geta í ljósi umræðunnar hér að fólkið sem er í lægsta skattþrepinu er eftir þessar breytingar með minni skattbyrði en það var með í því þriggja þrepa skattkerfi sem vinstri stjórnin kom á 2009–2013.

Hvað varðar barnabætur er ég alveg sammála því að við eigum að halda áfram að skoða það kerfi. Ég sat einmitt ágætiskynningu um þetta mál í morgun. Það er lykilatriði að draga út að Ísland sker sig úr vegna þess að barnabótakerfið miðar að þeim tekjulægri, en víðast annars staðar er miðað við kostnað við barn. Ég held að við eigum að fagna því sem vel er gert en við eigum að vita að við þurfum að halda áfram (Forseti hringir.) eftir þeirri braut.