150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[16:12]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er lækkun á hinum svonefnda bankaskatti sem í rauninni veltur alltaf yfir á neytendur bankakerfisins. Það er ekki neitt sérstaklega jákvætt, síst þegar sömu bankar skila töluverðum arði. Vonin er þó sú að með þessu muni gjöldin sem falla á neytendur lækka. Það er vonin. Við höfum hins vegar, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson bendir á, enga tryggingu fyrir því. Ég ætla ekki að segja þetta oft en breytingartillaga Miðflokksins var ansi góð vegna þess að með henni hefðum við a.m.k. tekið lítið og gott skref, hefðum getað séð árangurinn af því og svo getað tekið fleiri skref síðar frekar en að þetta gerist sjálfvirkt. Það er jákvætt að skatturinn lækki en við eigum ekki að gera þetta svona hratt.

Við munum sitja hjá vegna þess að þetta er ekki alveg rétt leið til að gera þetta. Þetta er of bratt, of hratt og of óhugsað að því leytinu til. Við vitum ekki hver áhrifin verða.