150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

almannatryggingar.

437. mál
[17:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég botna hvorki upp né niður í því af hverju við erum akkúrat að tala um þetta mál núna meðan hjá ráðherra liggur tillaga okkar um að gefa eldri borgurum hreinlega kost á því að vinna eins og þeir mögulega geta. Mig langaði að nefna það. Við höfum talað fyrir algeru afnámi skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Við skulum átta okkur á því að það eru ekki rosalega margir sem eru komnir á efri ár sem eru klárir í bátana til að vinna mikið lengi en við höfum a.m.k. ekki reynt að gera þeim það kleift eða hjálpað þeim til að gera það. Það segir sig sjálft og ég held að það sé nú talað um það nánast við hvert eldhúsborð og á hverri kaffistofu að einstaklingi sem hættir að vinna þegar hann er orðinn svolítið fullorðinn hrakar frekar heilsufarslega séð. Hann leitar kannski fyrr til lækna og annað slíkt og þetta er talið vera hreint og klárt lýðheilsumál. Flokkur fólksins lét á sínum tíma gera útreikninga á því hvað það myndi kosta að leyfa eldri borgurum að vinna, það var talað um að það kostaði svo mikla peninga. Ríkissjóður er náttúrlega alltaf blankur nema þegar hann ætlar að lækka bankaskatt og tekur ekki nógar rentur til okkar af aðgangi að sjávarauðlindinni. Að öðru leyti, þegar kemur að því að setja fólkið í fyrsta sæti, hefur nú oft brugðið við hér á hinu háa Alþingi að skortur sé á fé.

Mig langar til að vísa í rökstuðninginn fyrir tillögu okkar. Það var dr. Haukur Arnþórsson, sá ágæti maður, sem vann þessa greinargerð og þessa útreikninga um hvað þetta myndi í rauninni kosta ríkissjóð. Og svo ég haldi mig við efnið kemur í ljós að sennilega myndi ríkið hagnast af því og þá erum við bara að tala um beina sýn á það hvað staðgreiðslan og annað slíkt myndi gefa í aðra hönd. Vegna þess að með þessu, að leyfa einstaklingunum að vinna í stað þess að fara inn í kerfið „full swing“, án þess að vinna, þá hlýtur hver heilvita maður að sjá það að með því að vinna þá greiða þeir skatta í okkar sameiginlegu sjóði. Það hlýtur alltaf að vera til alls að vinna og einskis að tapa.

Nú segir hæstv. ráðherra að hann sé búinn að fá Capacent til að reikna þetta betur út og athuga hvort hinn ágæti maður, Haukur Arnþórsson, hafi haft rétt fyrir sér hvað þetta varðar. Þess vegna skil ég ekki alveg stöðu málsins akkúrat núna því að úttektin á að vera komin inn í þingið aftur ef að líkum lætur fyrir 1. mars, a.m.k. var það það sem við sömdum um. Þegar verið er að tala um það hérna og hæstv. ráðherra nefndi það áðan að best væri að reyna að gera þetta allt sem einfaldast þá finnst mér nú oft á tíðum, eins og í þessu tilviki, að það sé verið að gera hið einfalda flókið. Við hefðum kannski átt að bíða og sjá til hvort Flokkur fólksins og Haukur Arnþórsson hefðu eitthvað til síns máls, að í raun og veru myndi ríkissjóður bara hagnast á því fyrir utan lýðheilsuna og gleðina í eldri borgurum sem myndu kannski vilja og treysta sér til þess að vinna lengur. Ég skil ekki alveg hvers vegna við gátum ekki beðið og séð til með það. Þá hefðum við getað sleppt þessu öllu, hálfur og hálfur, hálf laun og hálfur lífeyrir.

Svo að ég vísi einmitt í þennan hálfa og hálfa aftur þá vantar í frumvarpið, a.m.k. eins og það er núna, skýrt viðmið fyrir Tryggingastofnun til að meta hvort starfshlutfall sé innan marka reglunnar sem frumvarpið felur í sér. Það er að mínu mati verulegur ágalli því að það er erfitt fyrir Tryggingastofnun að taka ákvarðanir sem skerða lagaleg réttindi á grundvelli matskenndra viðmiða. Það hefur löngum verið viðurkennt. Í greinargerðinni með frumvarpinu er talað um að gert sé ráð fyrir að Tryggingastofnun meti hvort starfshlutfall sé innan marka ákvæðisins ef hlutfallið er mjög lágt eða tekjur mjög lágar. Eins og ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. ráðherra myndar þessi nýja tillaga í mínum huga ákveðna fallöxi við 50% starfshlutfall. Því getur það verið erfitt fyrir fólk í 50% vinnu, t.d. ef það leysir af vegna manneklu og dettur óvart yfir 50% starfshlutfallið. Hvað tekur þá við?

Ég hef þetta ekki mikið lengra nema ég hefði gjarnan viljað sjá að tekið væri utan um það og því einfaldasta og hagkvæmasta fylgt eftir og sem er að mínu viti langskynsamlegasta og mannbesta fyrir eldri borgarana okkar. Ef það eru einhverjir sem eiga það skilið þá finnst mér það vera þeir, að fá að vinna eins og þeim sýnist og lausir við þetta endalausa skerðingarbrjálæði sem mér finnst vera hérna og þessa forræðishyggju þegar það kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu. Það þarf ekki einu sinni að vera með útreikninga. Einstaklingur sem kýs frekar að taka úr lífeyrissjóði og bla, bla, bla, vinna ekki neitt, borgar einfaldlega ekki skatta af starfinu sem hann vann ekki. Ef hann væri hins vegar að vinna og tæki jafnvel ekki einu sinni út úr lífeyrissjóðnum sínum, alls ekki strax, þá borgar hann skatta.

Betur má ef duga skal, hæstv. ráðherra, ég segi það. Þetta er jafnvel ívið verra en þetta barnaskref, litla smáskrefið sem við tókum í skattalækkuninni áðan. Ég vildi stíga létt niður, eins fislétt og ég er, og gera þetta virkilega með stæl og leyfa eldri borgurum að vinna og borga skatta og taka þátt ef þeir vilja.