150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt, og það er eitt af því sem rætt er sérstaklega í heilbrigðisstefnunni, að fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar sé þannig hugsuð að hún endurspegli raunverulega þjónustuþörf. Það er töluverð áskorun. Þá erum við í raun og veru að hverfa frá þeirri hugsun að það sé ein föst tala sem eigi að uppfylla allar þarfirnar og það sé svo viðkomandi stofnunar að finna út úr því, heldur sé það þannig að að baki fjármögnuninni liggi töluverð greining. Þetta tekur tíma og er eitt af því sem þarf að taka í skrefum fram til ársins 2030.

Nú hefur fjármögnunarlíkan Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu fengið töluverðan tíma til að sanna sig, ef svo má segja, og það hefur reynst afar vel ef marka má forystu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það sem við erum að gera núna á árinu 2020 er að við erum að prufukeyra eða skuggakeyra, ef svo má segja, sambærilegt líkan fyrir landsbyggðina, þó þannig að við erum að fylgjast með því að hvaða leyti við þurfum að horfa til annarra þátta á landsbyggðinni en við gerum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þá ekki síst þeir þættir sem hv. þingmaður nefnir, sem eru fjarlægð frá þjónustunni þar sem gilda í raun og veru allt önnur lögmál en þau sem hér gilda og ekki síður aðrar fjarlægðir gagnvart annars stigs þjónustunni sem hér er stutt í en getur verið öðruvísi á landsbyggðinni þar sem er annar þéttleiki þjónustunnar, ef svo má að orði komast. Það er auðvitað mikilvægt, bæði í þessu efni og líka í því dæmi sem hv. þingmaður nefnir, að fjármögnunarlíkanið, alveg sama hvernig það er, hvort sem það er í samningum við sjálfstætt starfandi eða hvort það er DRG gagnvart Landspítala eða fjármögnunarmódel gagnvart heilsugæslunni, sé þannig að það togi í rétta átt og sé í samræmi við heilbrigðisstefnu, bæti þjónustuna og auki öryggið.