150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra hjartanlega fyrir þetta svar sem gladdi mig mjög. Það er greinilegt að hún er með puttann á púlsinum því að það er eitt að reyna líkanið hér og greina þjónustuþörfina á þessu svæði eða hugsanlega í litlum sveitarfélögum úti á landi þar sem, eins og hæstv. ráðherra benti sjálf á, getur verið ansi langt á milli staða. Ef maður lendir fyrst á heilsugæslu þarftu hugsanlega, eins og í þessu tilviki, að keyra tæplega einn og hálfan klukkutíma á næsta stað til að komast í þá aðhlynningu sem þú þarfnast. Þannig að já, ég heyri að ráðherra er með puttann á púlsinum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að auðvitað er þetta verkefni risavaxið og tekur sinn tíma. En ég gleðst yfir því að hún skuli vera með augun galopin og puttann á púlsinum og vona að það skili sér.