150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hvatninguna og ég veit að þó að hún sé ekki enn þá komin í sama flokk og ég þá deilum við áhuga á góðri þjónustu fyrir alla landsmenn. Ég vil segja að það er mín einlæga afstaða varðandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar að bæta sérstaklega þjónustuna að því er varðar landsbyggðina. Þá er ég að tala um að bæta möguleika heilsugæslunnar, styrkja geðteymin um allt land, bæta í fjarheilbrigðisþjónustuna og koma fram með skýra stefnu varðandi sjúkraflutninga, þar með talið sjúkraflug. Nú var ég fyrri til að nefna sjúkraflutninga af því að hv. þingmaður fór ekki út í það. En við erum núna að endurnýja sjúkrabílaflotann, sem var náttúrlega löngu kominn tími á að gera. Ég á von á stefnu og aðgerðaáætlun varðandi sjúkraflutningana á allra næstu vikum og ég vonast til að þar getum við stigið raunhæf og mikilvæg skref því að það er einn mikilvægasti þátturinn sem við höfum á okkar valdi að því er varðar að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu.