150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Þetta verður ekki löng ræða en ég verð víst að fara eftir þeim reglum sem forseti hefur sett um það að maður má ekki fara í andsvör við sína eigin flokksmenn. Ég þarf að koma að tveimur atriðum en ég vil fyrst nefna að mér finnst það afar mikilvægt að núna í kjölfar þess að við settum heilbrigðisstefnuna þá kemur ráðherra með þessa breytingu á lögunum sem nær utan um þau atriði sem þar áttu við í heilbrigðisstefnunni. Ég held að það sé afar mikilvægt og til fyrirmyndar.

Mig langar að velta upp tveimur möguleikum eða tveimur spurningum kannski. Það er í fyrsta lagi í sambandi við 4. gr. Þar er talað um að heilsugæslustöðvar eigi að sinna fyrsta stigs þjónustu og ég er algerlega sammála því. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort greinin sé aðeins of þröng því að í einhverjum tilfellum, og sérstaklega úti á landi eins og kom fram í andsvörum áðan, getur verið skynsamlegt að hafa þetta ákvæði örlítið víðara, að það megi í einhverjum tilfellum sinna annars stigs þjónustu, til að mynda augnlæknaþjónustu eða einhverri slíkri þjónustu sem kæmi annars staðar að þó að um heilsugæslustöð væri að ræða. Ég vildi bara nefna þetta.

Að lokum varðandi 10. gr., um fagráðin. Ég þekki umræðuna um fagráðin ágætlega enda var ég svo lánsamur að fá að vera í nefndinni sem samdi þessi lög upprunalega, þ.e. lög nr. 40/2007. Þetta var þriggja ára vinna og voða skemmtileg. Þar fór fram þessi umræða og nefndin vildi á sínum tíma einmitt taka inn fagráð en það mætti töluverðri andstöðu á þeim tíma. Sú leið sem er í núverandi heilbrigðislögum var farin. Ég leyfi mér að búast við því að það kunni að verða svipaðar áhyggjur uppi að þessu sinni. Þá velti ég fyrir mér hvort kannski væri hægt að setja inn einhvers konar heimildarákvæði til að svara þeim áhyggjum og þá kannski sérstaklega í þeim stofnunum þar sem væru einsleitir starfsmannahópar.