150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[17:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að þetta var alls ekki andsvar þá er ég alls ekki að svara hv. þingmanni. Ég met mikils þá reynslu sem hv. þingmaður býr yfir nákvæmlega hvað varðar fagráðin og ég held að það skipti miklu máli að hann þekkir líka vel innviði heilbrigðisþjónustunnar og skilur og þekkir mjög vel þá umræðu sem var uppi 2007. Ég ætla að leyfa mér að telja að það hafi töluvert vatn runnið til sjávar síðan 2007 og ekki síst í því að við höfum sett niður fyrir okkur með skýrum hætti heilbrigðisstefnu og við höfum talað bæði skýrt í stefnunni og líka sú sem hér stendur um mikilvægi þess að draga úr miðstýringu í heilbrigðisþjónustunni og tryggja það að hver og einn forstjóri hafi vald á sinni stofnun og beri ábyrgð á henni jafnframt.

Umræðan sem hefur verið á undanförnum árum, og ekki bara hér á landi heldur um allan heim, með aukinni áherslu á teymisvinnu og mikilvægi þverfaglegrar nálgunar í heilbrigðisþjónustu, er töluverð breyting frá 2007 þó að ekki sé liðinn lengri tími en það. Það gefur mér ástæðu til að ætla og ekki síður samtöl við ýmsa á vellinum að sú framsetning sem hér er lögð til muni ekki mæta sömu andstöðu og gerðist á árinu 2007. Hins vegar er það auðvitað svo að það er gert ráð fyrir reglugerðarheimildum hér og það er gert ráð fyrir því að ráðherra geti leiðbeint um samsetningar slíkra ráða og hvernig þau eru skipuð o.s.frv. þannig að allur sveigjanleiki er þarna undir. Það að líta svo á að það séu í raun og veru bara hinar tvær hefðbundnu lykilstéttir heilbrigðisþjónustunnar, læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn, sem komi að þessu mikilvæga verkefni sem er að hafa það hlutverk að styðja við faglega og stjórnunarlega ákvarðanatöku hjá forstjóra, eru leifar frá gömlum tíma. Ég trúi því rétt eins og gildir með heilbrigðisstefnuna sjálfa að við séum komin að því að uppfæra líka heilbrigðislöggjöfina um heilbrigðisþjónustu til nútímans.