150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta andsvar er algerlega með ólíkindum. (KÓP: Nei.) Hér er verið að ræða fjármögnun. Það vantar fé í mikilvægar samgönguframkvæmdir. Ríkissjóður á banka sem heitir Landsbankinn. Það er ekkert óeðlilegt við það að leita leiða til að fjármagna þessar framkvæmdir, hv. þingmaður, og ríkissjóður hefur nokkuð sem heitir eigendastefna hvað þennan banka varðar. Ríkið getur ákveðið að selja þennan banka. Það getur líka ákveðið að þessi banki fari ekki í svona dýrar framkvæmdir, ríkissjóður heldur á hlutabréfinu í þessum banka. Þannig að þessi sleggjudómur hjá hv. þingmaður er með ólíkindum. Það hefur líka verið rætt í þessum sal að fara í að selja ríkisbanka eins og Íslandsbanka og nota jafnvel andvirðið til að fjármagna mikilvægar samgönguframkvæmdir. Er það rugl, hv. þingmaður? Er það bara rugl? Ég skil ekki svona málflutning. Ég held að þú ættir bara að skýra út sjálfur hvað þú ert að meina með þessu, hvað þú ert að fara. Það er fullkomlega eðlilegt að rætt sé um leiðir til að fjármagna mikilvægar samgönguframkvæmdir. Hv. þingmaður vill kannski bara leggja á veggjöld og láta almenning borga þetta allt saman á meðan við eigum fé sem ekki er nýtt í ríkisbankanum? Það er bara þannig. Ég skil ekki þennan málflutning frá hv. þingmanni.