150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að undirbúa mig fyrir fund á morgun í hv. fjárlaganefnd og fara yfir endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem er einmitt fjallað um samgöngumannvirki. Mig langaði aðeins að setja í samhengi samgöngumannvirkin þar og ríkisreikninginn miðað við samgönguáætlun sem við erum með hér. Í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2018 segir að bókfært verð samgöngumannvirkja í ríkisreikningi sé 588,6 milljarðar kr., þetta er þá í ríkisreikningi fyrir árið 2017, og bætast við 21,7 milljarðar þannig að bókfært verð samgöngumannvirkja er þá komið í 600 milljarða kr. Ég held að það sé aðeins of lágt metið því að ef við skoðum samgönguáætlun og heildina yfir allt tímabilið, 15 ára tímabilið, þá erum við með rúmlega 600 milljarða þegar allt er til tekið. Á 15 árum erum við þá í raun að endurbyggja heildarandvirði samgöngukerfisins. Það gengur augljóslega ekki upp í þeim samanburði.

Það er áhugavert að skoða þetta. Ég býst við að matsverðið í ríkisreikningnum sé pínulítið of lágt, enda er tekið fram að ekki sé alveg búið að klára allt það ferli. En þetta gefur okkur mun nákvæmari tæki til að meta umfang samgönguáætlunar í samhengi við þá eign sem við erum með í samgöngumannvirkjum. Það hjálpar okkur að meta t.d. viðhaldskostnað sem er hér upp á rúma 50 milljarða á fyrsta tímabili samgönguáætlanirnar, sem er það tímabil sem við erum að tala um núna. Við erum þá í u.þ.b. 2 eða 8% á ári miðað við þær tölur, í fljótum hugarreikningi, sem andvirði samgöngumannvirkja er eins og er. Maður á að spyrja: Er það eðlilegt álag, 2% álag? Er gert ráð fyrir styttri tíma í endingu á samgöngumannvirkjum en það?

Þarna sér maður í raun staðla og áhrif laga um opinber fjármál o.s.frv. koma inn í þingstörfin almennt. Ef þau væru unnin meira á sömu nótum og gert er með samgönguáætlun, þar sem er í alvörunni kostnaðarmat eins og á öllu hinu, þá gætum við farið að skoða samhengið miklu betur og átta okkur á tengslunum, hvað sé eðlilegt viðhald, árlegur viðhaldskostnaður í stærra samhengi. Erum við með of lágan viðhaldskostnað þarna? Erum við í raun að láta þá eign okkar sem samgöngukerfið er drabbast niður, ef miðað er við þetta viðhaldsfé? Eða viðhöldum við því andvirði sem liggur í samgöngumannvirkjum okkar? Ég hef einmitt oft talað um það, sérstaklega í tengslum við samgöngukerfið og þá uppbyggingu sem var lofað að fara í í innviðum fyrir síðustu kosningar, að við búum við ákveðna innviðaskuld. Í skýrslu frá Samtökum iðnaðarins er sýnt fram á ákveðna uppbyggingarþörf og ákveðna skuld í viðhaldi sem hljóðar upp á tugi milljarða.

Í öllu því samhengi, í samhengi við innviðaskuldir, í samhengi við virði þeirra samgöngumannvirkja sem við eigum, sem eru tvímælalaust virðisaukandi fyrir samfélagið, og í sambandi við þá stefnu sem við erum að setja okkur og þau markmið sem stjórnvöld setja sér í samgönguáætlun, hvað þýða þá þessar tölur sem eru lagðar fram í samanburði við það að viðhalda eign okkar, í því að borga upp innviðaskuldina, í því að borga upp þá framkvæmdaþörf sem er til staðar miðað við greiningu Samtaka iðnaðarins? Ég hlakka til að sjá þessa nálgun tekna í mun víðara samhengi í öðrum málum þingsins, að sjá þá aðferðafræði notaða sem hefur verið notuð lengi í samgönguáætluninni, því að það er tvímælalaust eitthvað sem myndi gera alla vinnu okkar miklu nákvæmari og mikla minna byggða á því að giska á hvað sé rétt tala í fjárheimildum fyrir hvert ár eða í vinnslu við fjármálaáætlun. Það gerir pólitíkina allt í einu nákvæmari og þá hættum við að þurfa að vesenast í því að verið sé að kalla eftir sölu á landsbankalóðum og einhverju svoleiðis í umræðum um samgönguáætlun.

Mig langaði til að vekja athygli á þessu af því að þarna sé ég endurspeglast þann kraft sem kostnaðarmat er og það samhengi sem kemur fram í lögum um opinber fjármál, ég sé það endurspeglast í þeim tölum sem birtast okkur í ríkisreikningi eins og þær eiga að vera, þ.e. í stofnefnahagsreikningum og svoleiðis, hvernig það er samhljómur á milli þess og þeirra fjárheimilda sem við erum að skipuleggja til framtíðar. Það gerir okkur miklu nákvæmari og betri í að meta það hvort við séum að fara vel með almannafé eða ekki.