150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

desemberuppbót.

[15:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Getur hæstv. félags- og barnamálaráðherra upplýst öryrkja um það hvenær uppbót upp á 10.000 kr. skatta- og skerðingarlaust verður borguð út? Verður það fyrir jól eða ekki? Það væri gott fyrir þennan hóp að vita það því að hann fékk minnsta jólabónusinn fyrir utan alla þá sem urðu fyrir skerðingu vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og annarra skattskyldra greiðslna og fengu því ekkert, fengu ekki krónu í jólabónus í boði þessarar ríkisstjórnar sem er ömurleg framkoma við þá sem verst standa í þjóðfélaginu og þurfa mest á stuðningi að halda.

Jólin eru fram undan og 200 manns reikna með að þurfa aðstoð Hjálpræðishersins í Reykjavík fyrir jólin. Þá þurfa 300–400 heimili vikulega matarúttekt hjá Mæðrastyrksnefnd og mun jólaaðstoð kosta Mæðrastyrksnefnd um 30 millj. kr. fyrir þessi jól. Þá er reiknað með að Hjálparstarf kirkjunnar þurfi að aðstoða 1.200–1.300 fjölskyldur um jólin, 3.500 manns. Fjölskylduhjálp Íslands reiknar með að 2.000 heimili þurfi aðstoð hennar um jólahátíðina á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Samtals þurfa þá um 10.000 manns nauðsynlega hjálp um jólin og stór hópur þeirra þarf matarhjálp allt árið. Þarna eru þúsundir barna til heimilis og það er gjörsamlega óásættanlegt að ár eftir ár sé fólki haldið í svona ömurlegri fátæktargildru af því að það á ekki fyrir mat handa sér, hvað þá fyrir börnin.

Hvað er hæstv. félags- og barnamálaráðherra að gera í þessu máli? Finnst honum þetta í góðu lagi svona eða ekki? Finnst honum ekki kominn tími til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að enginn þurfi að leita til hjálparsamtaka eftir mataraðstoð á Íslandi?

14.000 manns búa við efnislegan skort, fátækt, hér á landi og þá búa um 3.000 manns við verulegan skort, sárafátækt, á Íslandi í dag.

Hvenær verða 10.000 kr. skatta- og skerðingarlaust borgaðar út? Af framansögðu sést að það er sannarlega þörf á því strax og auðvitað mun meira fyrir þennan verst stadda hóp sem er skilinn eftir á fjárlögum hvers árs.