150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

skipun í stjórn Ríkisútvarpsins.

[15:25]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. RÚV er mér býsna hugleikið. RÚV tekur til sín stóran hluta af auglýsingatekjum innan lands, eins og öllum er ljóst, og RÚV er ráðandi á auglýsingamarkaði. Stjórn RÚV ber m.a. að hafa eftirlit með rekstri stofnunarinnar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram eftirfarandi í kafla 3.1, Óvenjulegt stjórnarfyrirkomulag, með leyfi forseta:

„Þegar litið er á stjórnarhætti Ríkisútvarpsins ohf. eru tveir þættir sem skera sig frá því sem kalla má almennt fyrirkomulag í opinberum hlutafélögum í eigu ríkisins. Annars vegar fer mennta- og menningarmálaráðherra með eignarhlut ríkisins í félaginu í stað fjármála- og efnahagsráðherra sem að jafnaði fer með slíkt hlutverk samkvæmt 43. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Hins vegar fellur það ekki í hlut fjármála- og efnahagsráðuneytis að skipa stjórn félagsins líkt og gert er ráð fyrir í neðangreindri 44. gr. laga um opinber fjármál. Þess í stað er kosið um fulltrúa á Alþingi.“ — Pólitíska fulltrúa.

Spurningin er því, hæstv. menntamálaráðherra, hvort það komi til greina að breyta fyrirkomulaginu við skipun í stjórn RÚV og fela fjármála- og efnahagsráðherra það alfarið að skipa í stjórn RÚV. Telur ráðherra að fjármunir þeir sem lagðir eru til Ríkisútvarpsins séu nýttir af hagkvæmni og skilvirkni? Tekur ráðherra undir það sjónarmið Ríkisendurskoðunar að æskilegt sé að skilja á milli eigendaábyrgðar og faglegrar og rekstrarlegrar ábyrgðar?