150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

fjárframlög til héraðssaksóknara og ríkislögmanns.

[15:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er stundum erfitt að átta sig á afstöðu og stefnu þessarar ríkisstjórnar og kannski ekki að furða enda verður stjórnarliðum tíðrætt um þá skýringu að hér sé um sögulega málamiðlun milli ólíkra flokka að ræða um mjög ólíka stefnu í fjölmörgum málum. Stjórnin virðist oft vera ósammála sjálfri sér og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að skýra áðan afstöðu stjórnarinnar til Landsréttarmálsins og fordæmisgildis þess því að svo virtist sem stjórnin væri þar enn eina ferðina komin í mótsögn við sig sjálfa. Það er ekki eina málið og skemmst er að minnast yfirlýsingar um aðgerðir gegn peningaþvætti. Við fórum í gegnum neyðarafgreiðslu á lögum til að bæta úr annmörkum þar undir þeirri forskrift að það væri til að koma í veg fyrir að við lentum á gráum lista. Við vitum hvernig það fór. Þá var því lýst yfir um hæl að við ættum ekki heima á þessum lista og yrðum þar skamma stund en síðan kom út skýrsla stjórnvalda þar sem kom einmitt á daginn að við vorum á þessum lista sökum áralangs trassaskapar, áttum einmitt heima á þessum lista, og í kjölfarið varaði hæstv. ráðherra við því að við værum of bjartsýn á að losna þaðan hratt og örugglega.

Það er samt ekki það sem mig langar helst til að ræða hér við hæstv. ráðherra þó að þetta stefnuleysi sé svolítið athyglisvert. Það er annað þessu líkt. Fjárlaganefnd afgreiddi núna tillögu um 8 millj. kr. framlag til ríkislögmanns á fjáraukalögum vegna kostnaðar við fyrrnefnt Landsréttarmál og það vekur strax upp þá spurningu hverju það sæti að hægt er — af því að beiðni þar að lútandi virðist hafa verið tekin fyrir á ríkisstjórnarfundi á föstudag samkvæmt fréttum — að snara því inn á fjáraukalög en á sama tíma sjáum við engin merki um að það sé verið að mæta fjárbeiðni héraðssaksóknara um verulega og fyrirsjáanlega útgjaldaaukningu á næsta ári vegna Samherjamálsins og fleiri mála.

Hverju sætir þetta misræmi í málsmeðferð, hæstv. dómsmálaráðherra?