150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

stefna stjórnvalda í fíkniefnamálum.

[15:38]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég beini orðum mínum til dómsmálaráðherra og spyr um stefnu stjórnvalda í fíkniefnamálum og eftirfylgni þeirrar stefnu. Nú hefur verið í fréttum undanfarið misseri stórkostleg aukning á innflutningi fíkniefna og á markaði götunnar vegna þessa mikla framboðs. Það hefur verið það mikið magn að verð hefur stórlækkað, sem gerir að verkum að fleiri geta keypt efnin. Ekki hefur verið gætt að því að endurnýja nauðsynlegan tæknibúnað fyrir tollgæslumenn svo að hægt sé með þokkalegri samvisku að segja að stjórnvöld séu að gera sitt besta í vörnum gegn innflutningi á ólöglegum fíkniefnum. Í því sambandi hefur Miðflokkurinn lagt ítrekað til aukna fjármuni í tollgæslu, sem hefur alltaf verið fellt. Aðgengi að fíkniefnum í gegnum internetið er orðið það auðvelt að börn og unglingar eru fljótari að fá fíkniefni eftir þeirri leið en að panta sér pitsu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er stefna ríkisstjórnarinnar skýr í þessum málaflokki, um innflutning á ólöglegum fíkniefnum? Og ef svo er, finnst ráðherranum þeirri stefnu vera nægilega fylgt eftir? Í annan stað: Hefur verið gerð könnun á því hvernig hægt sé að sporna við aðgengi að fíkniefnum í gegnum internetið og/eða tölvubúnað? Og ef svo er, hvernig er þeirri vinnu háttað?