150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

stefna stjórnvalda í fíkniefnamálum.

[15:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svarið og get alveg tekið undir það með ráðherranum að þetta er heilbrigðisvandamál. Ráðherrann kom aðeins inn á að bannstefnan væri kannski ekki að virka. Þá erum við farin að tala um aðra nálgun að þessum málum. Það er ansi löng umræða og tekur miklu meira en hálfa mínútu að ræða það. En ég hvet ráðherrann og ríkisstjórnina til að blása til sóknar í þessum málum þannig að það sé skýr stefna og árangurs að vænta. Börn og unglingar leiðast út í fikt við fíkniefni sem leiðir oft til frekari neyslu og hefur þeim fjölgað mikið og er aldur þeirra alltaf að færast neðar. Það er stórt samasemmerki á milli mikils aðgengis og neyslu. Biðlistar inn á meðferðarstöðvar eru alltaf að lengjast og ríkisstjórnin þarf að hysja upp um sig. Hér verður að vera skýr stefna (Forseti hringir.) stjórnvalda um að minnka aðgengi og auka aðgengi að meðferðarstöðvum.