150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2019 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

429. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir fyrirspurn hans, sem er mjög gott að fá, einnig í því skyni að leggja áherslu á samráð við Alþingi við meðferð þessarar þingsályktunartillögu. Reglugerð nr. 2349 frá árinu 2017 var send utanríkismálanefnd til samræmis við reglur um þinglega meðferð EES-mála og þess má geta að óskað var eftir efnislegri umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að samráð við þingnefndir, sem fjölluðu efnislega um málið, átti sér stað. Ég held að það sé af hinu góða, eins og mér heyrist eiga sér grundvöll og stoð í máli hv. þingmanns. Í áliti efnahags- og viðskiptanefndar komu fram ákveðin sjónarmið, til að mynda um að haft verði í huga að inngrip, varðandi íþyngjandi aðgerðir í tengslum við óréttmæta viðskiptahætti í viðskiptum á netinu, væru í eðli sínu afar íþyngjandi og gætu í mörgum tilfellum haft afleiðingar umfram tilætluð áhrif og hvatti efnahags- og viðskiptanefnd til þess að varlega yrði stigið til jarðar og meðalhófs gætt við innleiðingu íþyngjandi stjórnvaldsheimilda á borð við þessar.

Í áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar komu líka fram sjónarmið sem tekið var tillit til og gætt að við ritun fyrrnefnds frumvarps. Vegna þessarar efnislegu meðferðar málsins í tveimur þingnefndum tel ég að utanríkismálanefnd hafi í raun og veru treyst því að þær athugasemdir sem fram komu hjá fagnefndunum hafi verið réttmætar og góðar og sömuleiðis var þess gætt að því yrði komið á framfæri við ritun frumvarpsins.