150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

viðvera þingmanna við atkvæðagreiðslu.

[13:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka herra forseta kærlega fyrir að aðgreina svona þessa umræðu því að ég held að það sé til sóma að þingmenn og þeir sem mögulega hafa áhuga á að hlusta viti hvort við séum að ræða um atkvæðagreiðslu eða fundarstjórn forseta. Ég held að það sé góður bragur á því að þingmenn viti um hvað þeir tala hverju sinni. Þess vegna gleður það mig að vita undir hvorum dagskrárliðnum ég er að tala.

Vegna orða hv. þm. Birgis Ármannssonar var það nú svo að í gær var fjöldi stjórnarliða ekki í húsi og stjórnarandstaðan getur ekki borið ábyrgð á því að stjórnarliðar séu einhvers staðar annars staðar en hér og mæti ekki, ýmist vegna þingstarfa erlendis eða þingstarfa innan lands, eða af hvaða ástæðu sem það kann að vera. Það er óþarfi að láta eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar mæti ekki til starfa þegar það voru alveg eins (Forseti hringir.) stjórnarliðar sem voru ekki hér. [Háreysti í þingsal.] Ég held að … (Gripið fram í: Ómerkilegheit.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um ró í salnum.)

Það er magnað … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ræðutímanum er lokið og forseti biður um ró í salnum.)

Sú sem hér stendur ætlar að fá að klára ræðu sína vegna frammíkalla. (Gripið fram í.) Það er þannig að (Forseti hringir.) stjórnarliðar þurfa líka að vera á staðnum eins og stjórnarandstaðan. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti hvetur til að menn eigi hér róleg orðaskipti.)