150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

afbrigði.

[13:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Enn kem ég hingað til að biðja um aðstoð hæstv. forseta við að láta hlutina ganga vel hér á þingi. Við nefndarformenn höfum talað um það margsinnis við hæstv. forseta á fundum hversu bagalegt það sé þegar mál komi allt of seint inn. Ef við tökum dæmi úr velferðarnefnd var ekki komið eitt einasta stjórnarmál til hv. velferðarnefndar þegar nóvembermánuður rann upp. Nú erum við í hendingskasti rétt fyrir jól að afgreiða þrjú mál sem hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin vilja að klárist fyrir áramót. Þau eru vanbúin. Ég átta mig hreint ekki á því hvers vegna þau eiga nú að koma til 1. umr., hluti þeirra mála sem áttu að fara í 1. umr. í gær en komust ekki á dagskrá. Af hverju er verið að þröngva þeim hér inn í þingsal ef þau munu ekki ná afgreiðslu fyrir áramót? (Forseti hringir.) Ég bara átta mig ekki á þessum vinnubrögðum og alls ekki á þessari niðurröðun á dagskrána.