150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þá held ég að það sé best að byrja bara að tala um veðrið og það ætla ég að setja í samhengi við íslenska tungu og umræður um bágan lesskilning og orðaforða í kjölfar PISA sem mældi lesskilning og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi. Íslenskan er rík af orðum þegar kemur að því að lýsa veðri. Um vindstyrk samkvæmt Beaufort-kvarða sem nú er aflagður í íslenskum veðurspám eigum við orð á borð við kul, golu, stinningskalda, hvassviðri, rok, ofsaveður og fárviðri. Til viðbótar þessum orðum eigum við tugi orða sem lýsa vindi og má t.d. nota þessi: aftakaveður, áhlaup, bálviðri, foráttuveður, manndrápsveður og öskurok.

Herra forseti. Þá erum við ekki síður rík af orðum þegar kemur að úrkomu, ekki síst um snjókomu. Nefni ég t.d. snjóhraglanda, hundslappadrífu, kafaldsmygling, hríð, lenjuhríð, slydduhríð, svartabyl og klessing.

Herra forseti. Sagt er að börnin læri það sem fyrir þeim er haft. Það væri fróðlegt að orðtaka allar fréttir gærdagsins og dagsins í dag og greina hvernig fjölmiðlar lýsa veðrinu þessa dagana. Íslenska er og á að vera lifandi mál. Hér er ekki verið að mæla með því að gera öll ungmenni að sérfræðingum í veðurlýsingum heldur að benda á að við berum öll ríkar skyldur þegar kemur að því að efla skilning á tungumálinu og gera það að lifandi verkfæri í leik og starfi okkar allra. Lesum þess vegna með og fyrir börn og unglinga og síðast en ekki síst skulum við ræða við þau. Þá læra þau það sem fyrir þeim er haft.