150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við í atvinnuveganefnd höfum í vetur verið að fjalla um samkeppnisstöðu innlendrar fiskvinnslu gagnvart ríkisstyrktri fiskvinnslu innan ESB og samfélagsleg og efnahagsleg áhrif á Ísland vegna útflutnings á óunnum fiski í gámum. Nefndin hefur tekið þetta mál til góðrar umfjöllunar, fengið til sín fjölda gesta og það hefur komið fram að innlend fyrirtæki séu að keppa við fyrirtæki sem eru ríkisstyrkt í Evrópu sem í sumum tilfellum kaupa fisk á fiskmörkuðum hérlendis eða beint af útgerðarfyrirtækjum með þeim afleiðingum að fjöldi starfa hefur tapast í fiskvinnslu hérlendis og rekstrarstaða minni fiskvinnslustöðva orðið erfið. Nefndin hefur nú sameinast um það og óskað eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að það taki til skoðunar m.a. skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs sem mikið hefur verið til umræðu undanfarið og bregðist við henni. Nefndin telur nauðsynlegt að fá afstöðu sjávarútvegsráðherra, félagsmálaráðherra, samgönguráðherra, umhverfisráðherra og fjármálaráðherra til málsins og beinir því fyrirspurnum til þessara ráðuneyta um krefjandi álitaefni sem falla undir þeirra verksvið og óskar eftir svörum við þeim.

Nefndin vill að samkeppnisstaða innlendrar fiskvinnslu gagnvart fiskvinnslu innan ESB verði skoðuð vegna hins aukna útflutnings á óunnum fiski í gámum. Jafnframt verði skoðað hvernig eignarhaldi innlendra aðila í fiskvinnslum erlendis sem kaupa óunninn fisk frá Íslandi sé háttað og hvernig ESB standi að stuðningi við sjávarútveg og fiskvinnslu í aðildarlöndum sínum. Þessa frumkvæðisvinnu í nafni allrar nefndarinnar, að frumkvæði hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, tel ég vera mjög mikilvæga og að hún skili niðurstöðum sem stjórnvöld vinni með áfram. Þetta sýnir að við hér á Alþingi getum sýnt samstöðu þvert á flokka.