150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Forseti. Eitt af stórfyrirtækjum okkar hefur sett sér það háleita markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2025. Ég er hér að sjálfsögðu að tala um Landsvirkjun. Þessu ætlar fyrirtækið að ná m.a. með því að draga úr útblæstri Kröfluvirkjunar og það yrði að sjálfsögðu framfaraskref ef það tækist. Fyrirtækið er einnig með áætlanir um plöntun trjáa til kolefnisjöfnunar. Þetta er vissulega göfugt markmið en er hér öll sagan sögð? Er rétt ímynd gefin? Landsvirkjun hefur nefnilega selt hreinleikastimpilinn á hreinu orkunni okkar þannig að bæði einstaklingar og fyrirtæki búa við það að nota raforku sem er aðeins að 11% hluta hrein orka, 34% orkunnar eru framleidd með kjarnorku og 55% með olíu og gasi.

Forseti. Hvað er í gangi? Getur það verið að Landsvirkjun stundi massífa sölu á aflátsbréfum? Er almenningur upplýstur um að þrátt fyrir að hér sé framleidd umhverfisvæn orka séum við á pappírum að losa árlega 19 tonn af geislavirkum úrgangi og 8,8 milljón tonn af CO2 vegna raforkuframleiðslu?

Íslenskir raforkunotendur, hvort heldur sem eru fyrirtæki eða einstaklingar, leggja mikið á sig við að teljast umhverfisvænir. Er eðlilegt að greitt sé fullt verð á raforku sem er óhrein á pappírum? Eiga þeir sem leggja mikla áherslu á umhverfisvæna framleiðslu að sætta sig við slíkt? Ég set stórt spurningarmerki við sölu hreinleikavottorða. Ég hef velt því fyrir mér hvort kaupa eigi þau til baka. Landsvirkjun á vissulega að draga úr mengun og fyrirtækið á að sjálfsögðu að stefna að kolefnishlutleysi. En það á að gera með raunhæfum og skynsamlegum aðgerðum en ekki meiri sýndarmennsku.