150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

störf þingsins.

[14:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við Miðflokksfólk höfum lengi haft áhyggjur af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Við höfum lagt fram tillögur sem m.a. varða það að einfaldari aðgerðum sé aflétt af spítalanum að hluta og færðar öðrum sem við það geta unnið og við höfum lagt fram fjármagnaðar tillögur í því efni. Við höfum líka lagt til að geðsvið Landspítalans verði eflt með fjármunum vegna þess að ófremdarástand ríkir, aðallega meðal ungs fólks sem glímir við geðsjúkdóma, oft í bland við fíkn. Við höfum horft til þess í dálítinn tíma hvernig óveðursskýin hafa hrannast upp í kringum Landspítalann og við höfum líka lagt til að yfir spítalann verði sett neyðarstjórn.

Nú er komið svo, herra forseti, að farið er að grípa til uppsagna á Landspítalanum. Það er líka farið að grípa til uppsagna á yfirvinnusamningum og maður hlýtur að spyrja hvort þetta geti haft í för með sér, ef fram fer sem horfir, að fólksflótti verði af spítalanum vegna þess að starfsfólkið þar er náttúrlega búið að vinna hetjudáðir á hverju ári í mörg ár við erfiðar aðstæður. Það er ekki hægt að horfa á þetta án þess að grípa með einhverjum hætti inn í vegna þess að ekki er nóg með þetta heldur er á sama tíma vegna pólitískrar kreddu verkefnum hlaðið inn á spítalann sem voru annars staðar áður. Nú er ekki tími fyrir pólitískar kreddur, nú er tími til þess að við setjum neyðarstjórn yfir Landspítalann, gerum á honum góða stjórnskipulega og fjárhagslega úttekt og reynum að byggja hann upp aftur eins og hann og starfsfólkið, að ég tali nú ekki um þá sem bíða eftir úrlausn sinna mála, sjúklingarnir, (Forseti hringir.) eiga skilið.