150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Tilefni frumvarpsins má rekja til viðbótarsamkomulags sem undirritað var af fulltrúum íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 6. september sl. um útfærslu og endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi en ekki nýju samkomulagi. Með samningnum er stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum en samningurinn gerir m.a. ráð fyrir því, sér í lagi eftir brottfall laga um kjararáð 2018, að þjóðkirkjan beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveði sjálf fjölda starfsmanna sinna. Einnig mun þjóðkirkjan annast sjálf alla launavinnslu, bókhald og launagreiðslur starfsmanna sinna frá 1. janúar 2020.

Af samningnum leiðir að þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem hingað til hafa fengið laun sín greidd úr ríkissjóði samkvæmt þjóðkirkjulögum og njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn samkvæmt þeim lögum og starfsmannalögum munu framvegis þiggja laun sín frá þjóðkirkjunni og teljast þá ekki til embættismanna eða starfsmanna ríkisins frá þeim tíma.

Samkvæmt starfsmannalögum eru biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar embættismenn. Það er eina breytingin sem er lögð fram í þessu frumvarpi. Til að tryggja tiltekin efnisatriði þessarar útfærslu samningsins og að hún öðlist lagagildi er dómsmálaráðherra falið samkvæmt því að leggja fram frumvarp á Alþingi sem feli í sér breytingu á þeim lögum sem frumvarp þetta fjallar um. Eru breytingarnar nauðsynlegar svo að þjóðkirkjan geti séð um launamál allra sinna starfsmanna frá áramótum eins og undirbúið hefur verið.

Helstu breytingar sem eru lagðar til á þjóðkirkjulögum lúta í fyrsta lagi að orðalagsbreytingum þar sem víða er í lögum vísað til orðsins embættis og skipunar eða setningar í embætti. Er þess í stað lagt til að vísa til orðsins starfs og ráðningar í starf. Þá er nauðsynlegt að fella brott ákvæði V. kafla laganna og 2. mgr. 3. gr. þar sem vísað er til þess að ríkið standi skil á launagreiðslum tiltekinna starfsmanna þjóðkirkjunnar og tilgreint að réttarstaða þeirra sé sú sama og opinberra starfsmanna. Á móti kemur að lagt er til að í lögin komi bráðabirgðaákvæði sem tryggi réttindi þess starfsfólks sem skipað hefur verið í embætti til loka þessa árs þannig að ákvæði starfsmannalaga gildi eins og við getur átt í samskiptum þjóðkirkjunnar við það starfsfólk fyrstu þrjá mánuði ársins 2020.

Er gert ráð fyrir að kirkjuþing hafi fyrir 1. apríl 2020 skipað þeim málum sem felld verða brott úr þjóðkirkjulögum með starfsreglum. Einnig er lagt til að það starfsfólk sem skipað hefur verið í embætti fyrir næstu áramót haldi þeim réttindum og skyldum sem af skipuninni leiða út skipunartíma sinn. Til viðbótar við breytingar á þjóðkirkjulögum er nauðsynlegt í samræmi við viðbótarsamninginn að fella brott ákvæði úr lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem talið er upp hvaða starfsmenn þjóðkirkjunnar teljist til embættismanna ríkisins þar sem þeir munu framvegis verða starfsmenn þjóðkirkjunnar. Þar sem viðbótarsamkomulagið gerir ráð fyrir að þeim starfsmönnum þjóðkirkjunnar sem nú eiga aðild að A- og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins standi til boða að halda þeirri aðild á meðan þeir gegna störfum hjá þjóðkirkjunni er jafnframt nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins svo þeir fái haldið aðild sinni að B-deild sjóðsins.

Við undirbúning frumvarpsins var m.a. haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið og þjóðkirkjuna en þjóðkirkjan samþykkti á kirkjuþingi í nóvember ákveðnar breytingar sem samræmast frumvarpi sem hér er lagt til.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps. Þar sem viðbótarsamningur milli ríkis og þjóðkirkju gerir ráð fyrir að þjóðkirkjan taki yfir launamál allra sinna starfsmanna frá 1. janúar 2020 eru þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu brýnar. Síðan má ræða samkomulagið frá 1997 eða þessa útfærslu á því nánar, sér í lagi þegar þörf er á á næsta ári að koma með lagabreytingar um þjóðkirkjuna sjálfa og fleiri lagabreytingar í átt að útfærslum þessarar útfærslu. En hér er einungis lagt til að núverandi starfsmenn verði ekki opinberir starfsmenn heldur starfsmenn þjóðkirkjunnar. Það er eina breyting þessa frumvarps og ekki er verið að taka á neinum öðrum efnisatriðum, hvorki samkomulagsins frá 1997 né þeirri uppfærslu sem gerð var núna í byrjun september. Eina breytingin í þessu frumvarpi er þessi, svo það sé alveg skýrt miðað við alla þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta samkomulag, eins og það sé til sérstakrar umræðu eða einhverjar stórfelldar breytingar á þjóðkirkjulögum.

Mikilvægt er í kjölfarið að koma með ákveðna hreinsun úr þjóðkirkjulögum á ýmsum ákvæðum um fjármál, fjárstýringu og ýmsa sjóði sem munu falla á brott, og ásamt líka endurskoðuðum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem munu þá vonandi endurspegla frekar aukið sjálfstæði og skref í átt að skipulögðum aðskilnaði ríkis og kirkju.

Ég tel að þessar breytingar á samskiptum ríkisins og þjóðkirkjunnar séu óhjákvæmilegur fylgifiskur, ekki aðeins þeirrar ákvörðunar kjararáðs að það sé ekki til, heldur einnig þeirra breytinga sem hafa orðið í þjóðfélaginu á undanförnum árum þar sem fleiri og fleiri landsmenn kjósa að standa utan þjóðkirkjunnar. Oft er í því samhengi rætt um aðskilnað ríkis og kirkju og svolítið misjafnt er hvað fólk á við. Hér er ekki verið að breyta eða takmarka greiðslurnar frá ríkinu með þessari útfærslu á samkomulagi. Samskiptin eru einfölduð til muna en engar nýjar skuldbindingar eru í þessari útfærslu heldur er aðeins verið að útfæra ákveðin atriði úr samkomulaginu frá 1997.

Ég tel að með þessum breytingum, bæði breytingunni um starfsmenn sem við stígum með þessu frumvarpi og þeim sem koma skulu út af þeirri útfærslu sem farin var í september, sé verið að stíga stórt skref í þá átt að þjóðkirkjan líkist fremur frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag fremur en ríkisstofnun.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.