150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð pínu ringlaður við það sem hæstv. ráðherra sagði um hvað verið væri að ræða í þessu frumvarpi. Ég er búinn að lesa frumvarpið, þekki efni þess. Hér er óneitanlega um að ræða löggjöf sem er tiltekin í viðbótarsamningnum sjálfum, í fyrirvörum sem eru neðst í honum. Þá er ekki hægt að álykta annað en að sú löggjöf sem við setjum hér sé skilyrði fyrir því að fyrirvari sé uppfylltur. Ef það er einhver misskilningur af minni hálfu þætti mér mjög vænt um að fá það á hreint frá hæstv. ráðherra.

En sömuleiðis verð ég að hvá yfir því að þessar breytingar séu teknar út fyrir sviga miðað við hinar breytingarnar sem á að gera hvað varðar fjármögnun kirkjunnar, þ.e. að verið sé að breyta ákvæðinu um að ríkið skuli fjármagna svo og svo marga starfsmenn af hinni og þessari sort út frá félagatalsfjölda þjóðkirkjunnar. Þetta frumvarp hlýtur að vera útfærsla á þeirri breytingu og þar af leiðandi vera hluti viðbótarsamningsins. Ef ég er að misskilja eitthvað þætti mér vænt um heyra leiðréttingar á því.