150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessum viðbótarsamningi er kveðið á um að það fyrirkomulag að fjárhagsaðstoð ríkisins — sem ég ætla að kalla svo, ég veit að það er uppnefni en ég ætla að gera það samt — fari eftir því hversu margir séu skráðir í þjóðkirkjuna sé afnumið, eins og ég skil viðbótarsamninginn, og þess í stað sé föst upphæð, reiknuð út frá ákveðnum tíma, lögð fram. Ég skil svör ráðherrans á þá leið að hægt væri að lögfesta þetta frumvarp án þess að gera einnig þá breytingu sem ég var að nefna. Mér finnst hæstv. ráðherra tala eins og að enn sé tími til að endurskoða þetta samkomulag eða samþykki þingsins á að fyrirvörum þess verði aflétt með lagasetningu. Mér finnst mikilvægt að það sé á hreinu þannig að við vitum þá alla vega í hvaða stöðu við erum sem þingmenn til að hafa áhrif á gang málsins. Liggur það ekki fyrir að ef við samþykkjum þetta mál hljótum við sjálfkrafa að vera að samþykkja restina af viðbótarsamningnum?