150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er auðvitað bara verið að ræða þessa breytingu. Síðan þegar við fáum til meðferðar almenna endurskoðun á þjóðkirkjulögunum sjálfum, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, getum við tekist á um alls konar mál er varða þjóðkirkjuna, afskipti ríkisins, starfsemi hennar og fleira. Í dag er það sem er að falla á brott með þessu t.d. að það eigi að vera 138 prestar eins og kveðið er á um í kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og að það hvíli á kirkjunni að ákveða hve margir starfsmenn séu á hennar könnu og fleira. En það eru auðvitað enn þá ákveðnar reglur sem við erum með eins og þegar kirkjan tekur á sig ýmsa vinnu eins og sálgæslu. Það má taka sem dæmi að það var verið að auglýsa eftir fangelsispresti. Það ekki greitt sérstaklega fyrir hann frá fangelsum landsins heldur af kirkjunni sjálfri. Þarna er auðvitað bara ákveðið kerfi sem við höfum verið með (Forseti hringir.) og erum með til endurskoðunar og þetta samkomulag er aðeins útfærsla, ekki nýtt samkomulag.