150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innleggið. Með þessu er verið að einfalda kerfið varðandi sjóði á borð við kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna, sem hafa verið í lögum og fjárlögum hvers árs. En vegna þess að hv. þingmaður nefnir aðskilnað ríkis og kirkju er auðvitað, eins og ég vék að áðan, ögn misjafnt í hvað fólk er að vísa. Efst í hugum sumra er að engar fjárhagslegar greiðslur renni frá ríkinu eða úr skattkerfinu til þjóðkirkjunnar. Þessi samningur færir menn kannski hvorki nær né fjær því takmarki að stöðva þær greiðslur. En með þessari útfærslu tekur kirkjan samt sjálf við starfsmönnum sínum og starfsmannamálum og fjárhagsleg samskipti ríkisins og kirkju eru einfölduð þannig að þjóðkirkjan verður í minna mæli eins og hver önnur ríkisstofnun. Ég myndi segja að við séum að gera hana sjálfstæðari. Við erum ekki að stíga nein skref um aðskilnað, enda er kveðið á um það í stjórnarskránni. En þetta er samt skref sem eykur sjálfstæði kirkjunnar og miðar, held ég, að því takmarki að einn daginn verðum við hér að ræða (Forseti hringir.) aðskilnað ríkis og kirkju og hvaða breytingar muni koma í kjölfarið á þeirri breytingu. En þetta eru stór skref í átt að auknu sjálfstæði kirkjunnar sem ég held að bæði kirkjan og samfélagið fagni.