150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði bæði um sjálfstæði og aðskilnað og það er auðvitað misjafnt hvaða fólk er að tala um í þessum efnum. En ég held að kirkjan og ríkið séu tilbúin í aukið sjálfstæði kirkjunnar. Það er ég einnig. Við þurfum auðvitað að horfast í augu við ýmsar breytingar sem eru að verða í þjóðfélaginu okkar. Samkvæmt nýjustu tölum eru 231.000 manns í þjóðkirkjunni en 132.000 manns standa utan hennar. Þetta eru miklar breytingar á samfélaginu okkar á örfáum árum og við þurfum að vera tilbúin til þess að horfa til framtíðar í þeim efnum. Hvað er best fyrir þjóðfélagið okkar? Hvert vill þjóðfélag okkar stefna? Hvernig vill þjóðkirkjan standa í því þjóðfélagi? Þjóðkirkjan verður alltaf stór partur af íslensku samfélagi en það er, held ég, algjörlega undir henni komið hvort hún verður þjóðarkirkja eða ekki, hvernig hún hagar sínum málum, hvort fólk leiti til hennar og treysti henni, leiti til hennar í blíðu og stríðu. Það er undir þjóðkirkjunni komið að haga sínum málum þannig að fólk leiti til hennar (Forseti hringir.) burt séð frá því hvernig samskipti ríkis og kirkju verða í náinni framtíð.